Að taka skrefið að næsta stigi sjálfsmeðvitundar

Andaðu inn. Djúpt. Andaðu út. Finndu. Hvernig líður þér núna? Hvar myndir þú segja að þú værir í orku-líðan þinni? Af hverju líður þér einmitt svona núna? Hvað hafði mögulega áhrif á að þér liði svona?

Þú kannast eflaust við það að fara inn á einhvern fjölmennan stað, t.d. verslunarmiðstöð, og byrja fljótlega að finna fyrir þreytu eða einhvers konar streitu sem byrjar að hafa einhvers konar krefjandi áhrif á þig.

Hversu fljótt gerir þú þér grein fyrir að þú ert að skynja utanaðkomandi áhrif, sem smátt og smátt byrja að hafa áhrif á þína eigin líðan? Enn sterkari áhrif er hægt að finna þegar þú ert nálægt einhverri krefjandi manneskju sem virðist draga úr þér orku jafnt og þétt. Hvar og hvernig koma þessi áhrif fram hjá þér fyrst? Er það alltaf eins, eða breytist það? Hvar er þinn veikasti hlekkur í orku-styrkleika þínum?  Við hvaða fleiri aðstæður upplifir þú svona orkuminnkandi áhrif?

Og nú spyr ég, gerir þú þér grein fyrir því hvað þetta er dýrmætar upplýsingar fyrir þig? Þarna er orku-kerfið þitt að tala við ÞIG og gefa þér sterkar vísbendingar um hvar er ójafnvægi í orkunni þinni.  Svipað og þegar líkaminn þinn verður fyrir einhvers konar hnjaski eða ónotum, þú færð verk á viðkomandi stað. Það er eins og rautt ljós sem kviknar á mælaborðinu í stjórnkerfinu þínu sem táknar að orkan er þar í ójafnvægi og kallar því eftir athygli til að meðhöndla það sem er í gangi.

Eins og máltækið segir, orkan fer þangað sem athyglin beinist að, þá er “verkurinn” ein skilvirkasta leið líkamans til að fá athyglina – eða orkuna, sem vantar til að koma málunum í jafnvægi aftur.

Prufaðu að nýta þér þessa nálgun á það sem gerir vart við sig sem veika hlekki í orku-kerfinu þínu við mismunandi krefjandi aðstæður eða upplifanir. Þegar þú gerir þér grein fyrir hvernig þér líður hverju sinni, ef það er eitthvað öðruvísi en í góðu jafnvægi, nýttu þér það sem leið orku-líkamans þíns til að láta þig vita hvar “verkurinn” er hverju sinni, hvað þarfnast athygli, orku, til að komast rétt jafnvægi, orkuflæði, aftur.

Þessi leið eykur sjálfkrafa sjálfs-meðvitund þína, því á sama tíma ertu að venja þig á að taka regluleg stöðu-tékk á sjálfri/sjálfum þér, og uppgötva hvar þú ert, í þinni eigin orku, líðan, upplifun, og hvernig þú getur byrjað að taka upplýstari ákvarðanir um það sem er í gangi hjá þér hverju sinni, hvað skiptir þig raunverulegu máli, hvað er eflandi og gefandi fyrir þig, og hvað ekki.  Á sama tíma er einnig gott að gera sér grein fyrir því að umhverfi okkar er yfirfullt af ýmis konar áreitum í ýmsu formi (einnig sem gleymska) sem saman hjálpast að við að taka athyglina þína FRÁ þér og TIL sín.

Þeim mun æfðari sem þú ert í að fylgjast með þinni eigin orku, þeim mun betur nærðu að varðveita, efla og dýpka þína eigin orku og sjálfs-meðvitund. Nýttu þér það sem þú býrð yfir.

Taktu skrefið að næsta stigi, fyrir þig.

Um höfund

Hjalti Freyr KristinssonICF markþjálfi, heilsunuddari, dáleiðslutæknir (Dip.CH.), kerfisfræðingur og leiðbeinandi í hugleiðslu.
"Ég hef lengi lagt stund á hugleiðslu og ýmsar aðferðir til að auka næmni, skynjun og ýmis konar sjálfseflingu. Lærði nudd í Nuddskóla Íslands '99-2000 og lagt áherslur á heildræna nálgun (djúpslökun, orkujöfnun, sjálfseflingu/heilun o.fl.) í því síðan þá, með öðru. Ég byrjaði að kenna hugleiðslu árið 2003 eftir að hafa lært og stundað Silva Ultramind fræðin, en hef svo í kjölfarið ástundað og tileinkað mér aðferðafræðina sem kennd er hjá Higher Balance Institute og fundið farveg fyrir það inn í áframhaldandi kennslu, leiðbeinslu og í mínu eigin ferðalagi í vakningu sjálfsvitundar. Með nánari lærdóm í dáleiðslu aðhylltist ég mjög aðferðir til að tengjast djúpt inn á við og æðra sjálfi og þá sérstaklega Yagerian og QHHT aðferðina. Til að setja svo punktinn yfir i-ið, þá er fór ég í gegnum formlega ICF vottaða þjálfun sem markþjálfi, og hef nú einnig lokið framhaldsnámi í því (Advanced Coaching Training). Minn helsti fókus er að auðvelda fólki að uppgötva sinn eigin kraft og sjálfsvitund og efla það til næstu skrefa í ferðalagi þess um lífið. Að efla ljós hvers og eins."

Sjá nánar: ljoseind.is
Ýmis konar tækni- og vefaðstoð