Ákvörðun er stundum allt sem þarf!

Fyrir nokkru fékk ég tölvupóst frá konu sem hefur átt erfitt með að breyta lífi sínu á þann veg sem hún helst vill. Sjálfsöryggi sitt væri nánast ekkert og sjálfsálitið í molum. Allt var neikvætt og erfitt. Ekkert gengi. Hún væri komin í tilfinningalegt þrot. Henni þótti sem ekkert gengi – hún væri búin að prófa allt – en hefði ekki nægilegan sjálfsaga til að halda sig nógu lengi við breytingar til að ná árangri.

Konan bað mig um að vera hreinskilin við sig, hvert væri mitt álit, gæti hún breytt þessu?
Þar sem sambærilegar sjálfsniðurrifs hugsanir og tilfinningar geta leynst víða og hugsanlega  í einhverju formi innra með þér, þá ætla ég að deila hluta af svari mínu til hennar með þér hér.

SVAR MITT (JBS): „Mitt álit er að allt er hægt í þessum efnum og þú getur haft mikil áhrif á aðstæður þínar eins og þær eru í dag. Það eru einhverjar ástæður fyrir því hvernig allt hefur þróast í kringum þig og hjá þér. Þegar þú gerir þér grein fyrir áhrifavöldunum í lífi þínu – þá áttu auðveldara með að skilja hvernig fór með sjálfstraustið þitt. Þú fæddist ekki með lélegt sjálfsmat, skort á sjálfsaga eða með marga poka af einhverju neikvæðu á bakinu. Málin fóru bara þannig smá saman. Hvers vegna?
Við erum oft svo alltof fljót á okkur að bregðast neikvætt við aðstæðum sem upp koma í lífinu og þau viðbrögð kalla mögulega fram enn erfiðaðri aðstæður.
Við breytum aldrei því sem er liðið, við getum hinsvegar haft mikil áhrif á það hvernig mál þróast í dag og hvaða stefnu líf okkar tekur frá og með núna. Ákvörðun er stundum allt sem þarf.

Hvernig sérðu „draumastöðuna“ fyrir þér eftir um mánuð ef þér tækist að byrja að vinna markvisst í  þínum málum með öflugum stuðning?  Hvernig tilfinning væri það? Hvað væri til marks um að það hefði tekist? Hvað þarft þú að gera til að svo megi verða? Hvenær byrjar þú á því? Hvernig ætlar þú að verðlauna sjálfa/-n þig fyrir öll litlu skrefin sem þú nærð að taka í átt að aðalmarkmiðinu? Markviss vinna með markþjálfa getur auðveldað þér ferlið, að komast nær því sem þú vilt að verði raunveruleikinn í lífi þínu. Markþjálfinn segir þér ekki hvað þú átt að gera, hvaða skref þú átt að taka heldur aðstoðar markþjálfinn þig við að finna þín eigin svör. Aðeins þú veist hvað þig dreymir um, markþjálfun lýsir þér leiðina – þú ákveður skrefin.

Með bestu kveðju

Jóna Björg Sætran

Um höfund

Jóna Björg Sætran
Jóna Björg SætranM.Ed., kennari, ICF markþjálfi, HAM
- starfar við markþjálfun, hugræna atferlismeðferð, námstækni, samtalsmeðferðir, fyrirlestra, kennslu og námskeiðahald.

Starfssvið Jónu Bjargar Sætran einkennist af því að samnýta þekkingu sína og reynslu af menntunarfræðum, áratuga reynslu af kennslu í grunn- og framhaldsskólum, markþjálfun, hugrænni atferlismeðferð, námskeiðahaldi, fyrirlestrum, kennslufræði, fyrirtækjarekstri og árangursfræðum í víðum skilningi til að opna fólki sýn á mátt einstaklingsins til að hafa áhrif á eigin velferð, vellíðan og lífshamingju.

Namstaekni.is
FengShui.is