Björgun EÐA óþarfa inngrip?

Er okkur hætt við að ráðskast með aðra – þegar við teljum okkur vera að hjálpa þeim?

Við,  ungur sonarsonur minn og ég,  unnum smá björgunarstarf einn rigningarmorgun fyrir um 4 árum, þegar við björguðum litlum ánamaðki af gangstéttinni við leikskólann. Litli sæti ánamaðkurinn var að flýja bleytuna, en sá stutti var smeykur um að einhver myndi stíga á hann.  Bíllykillinn var því notaður til björgunaraðgerða og smeykt gætilega undir litla krílið – ánamaðkurinn komst aftur til síns heima, í öruggt skjól …. að því að okkur fannst. Góðverk dagsins var í höfn! Eða hvað …. var þetta góðverk eða gerðum við ánamaðkinum grikk?

Litli hægfara ánamaðkurinn var sjálfur að reyna að bjarga sér úr sínum aðstæðum en við töldum okkur vita betur og gripum inn í.  Komst hann tilbaka til fjölskyldunnar og félaganna? Rataði hann heim – eða gerðum við aðstæður hans enn verri?

Hvernig er þetta með okkur sjálf í dag, erum við oft að grípa inn ferli í hjá öðrum af því að við teljum okkur vita betur? Erum við að firra aðra þeim þroska sem í því felst að taka fyrir alvöru ábyrgð á eigin lífi og hamingju? Erum við að beita björgunaraðgerðum sem eiga ekki alltaf við? Erum við að hlaupa of fljótt til og grípa inn í það sem við teljum vera óheillavænlegar aðstæður fyrir viðkomandi? Erum við of fljót að benda á það sem OKKUR finnst vera miður hjá öðrum, erum við of snögg að beita neikvæðri gagnrýni á það sem hinir í fjölskyldunni, vinahópnum, vinnufélagarnir eða jafnvel nágrannarnir eru að gera? Hvernig getum við vitað hvað sé öðrum fyrir bestu? Hvað eða hver gefur okkur rétt til þess?

Erum við ekki stundum of snögg til að kasta út björgunarhring þegar hans er í raun ekki þörf? Gefum við okkur nægilegan tíma til að horfa, hlusta, reyna að skilja aðstæður og heyra hvernig viðkomandi vill allra helst að málin þróist? Gefum við okkur nægilegan tíma til að aðstoða viðkomandi við að komast að því hvers vegna aðstæður eru eins og þær virðast vera?  Er það nefnilega ekki einmitt málið að leyfa viðkomandi að hugsa upphátt og bara  hlusta.  Já, hreinlega læra að þegja og hlusta, leyfa viðkomandi að sjá óska útkomuna, kalla fram sína eigin draumsýni.

Stundum getur besta aðstoðin verið í því fólgin að vera til staðar, hlusta, spyrja, hvetja og hrósa. Flestu má breyta með einbeittum vilja, raunhæfum og vel skilgreindum markmiðum og meðvitaðri notkun hugsana á tilfinningalegar upplifanir og athafnir. Sá eða sú sem „situr í súpunni“ verður að vilja standa upp og breyta aðstæðum sínum til betri vegar. Þú getur rétt fram hjálparhönd en aðallega til að vera til styrktar því það er ekki gott til lengdar að ferðast um dimman dal. Vera vinur í raun þegar á þarf að halda en ekki fyrra viðkomandi ábyrgð á eigin lífi og velferð.

 

Höfundur

Jóna Björg Sætran
Jóna Björg Sætran
M.Ed., kennari, ICF markþjálfi, HAM
- starfar við markþjálfun, hugræna atferlismeðferð, námstækni, samtalsmeðferðir, fyrirlestra, kennslu og námskeiðahald.
» Nánari upplýsingar og tímabókanir
  • 8 Posts
  • 0 Comments
M.Ed., kennari, ICF markþjálfi, HAM - starfar við markþjálfun, hugræna atferlismeðferð, námstækni, samtalsmeðferðir, fyrirlestra, kennslu og námskeiðahald. » Nánari upplýsingar og tímabókanir