Framkvæmir þú af innblæstri eða þvingun?

Sleppum takinu
Það er einstaklega frelsandi að sleppa tökunum á að “þurfa” eitthvað, og sleppa tökunum á að hlutirnir “verði” að fara á ákveðinn hátt. Staðreyndin er sú að þegar við ríghöldum í að eitthvað verði að vera á ákveðinn hátt þá erum við í raun í viðnámi og stöndum í vegi fyrir flæði góðra hluta og atburða.


Við erum skaparar
Við erum að skapa okkar eigið líf og raunveruleika, en það er kúnst að skapa það þannig að það sé eins og við viljum. Hugsanir okkar og tilfinningar eru grunvallarþættirnir sem skapa okkar líf. Þess vegna ætti það að vera okkar höfuðmarkmið að ná tökum á þessu tvennu. Það sem við hugsum reglulega það er okkar sannleikur. Það hefur verið sýnt fram á að fólk hugsi nánast sömu hugsanirnar dag eftir dag, og staðfestir þannig í sífellu gamla trú sem það hefur um sjálft sig og sitt líf. Þess vegna er svo erfitt fyrir fólk að breyta einhverju í sínu lífi. Það þarf að endurforrita undirvitundina til að breyta innri og ytri þáttum í okkar lífi.


Þvingun eða innblástur?
Til þess að breyta einhverju í sínu lífi þarf maður í fyrsta lagi að taka ákvörðun um að maður ætli að breyta þessum þætti. Og maður þarf að sjálfsögðu að standa grjótharður á þeirri ákvörðun. Hins vegar þarf maður samt sem áður að sleppa tökunum sjálfur og leyfa hlutunum að þróast að sjálfu sér, en ekki reyna að þvinga hlutina fram. Þegar að við reynum að stjórna sjálf með þvingun þá lendum við á vegg. Kúnstin er að sleppa tökunum og vera í flæði, og þá fær maður innblástur til þess að framkvæma það sem leiðir til þess sem við viljum. Auðvitað þarf að gera ákveðna hluti til að fá ákveðnar niðurstöður, en lykillinn er að vera meðvitaður um hvort aðgerðir eru þvingaðar eða framkvæmdar af innblæstri. Í þessu samhengi má heldur ekki rugla saman því að þvinga eitthvað fram og að fara út fyrir vellíðunarramman. Það er nauðsynlegt að fara út fyrir vellíðunarramman til að vaxa og ná árangri. Til þess þarf hugrekki og hvatningu, og því fylgir sigurtilfinning. En þvingun fylgir ekki sigurtilfinning, þá ertu bara að ganga gegn þinni innri leiðsögn.


Hörð og mjúk
Við þurfum bæði að vera hörð og mjúk þegar við erum að skapa okkar líf eins og við viljum hafa það. Við þurfum ákveðna hörku til að láta vaða og fara út fyrir vellíðunarramman, en svo þurfum við mýkt og umbuðarlyndi til að leyfa hlutunum að þróast á besta mögulega veg. Framkvæmir þú og ferð út fyrir vellíðunarramman fyrir tilstilli innblásturs, eða ert þú sjálfur að reyna að stjórna með því að þvinga hlutina fram?


Þín innri leiðsögn
Lykillinn felst alltaf í því að hlusta á þína innri leiðsögn, innsæið þitt. Það eru tilfinningarnar þínar. Mátaðu allt við það hvernig það lætur þér líða. Upplifir þú hugrekki, sigur, ást, vellíðan, áskorun, dyggð, frelsi, sælu eða gleði þegar þú hugsar um ákveðna hluti? Eða upplifir þú óþolinmæði, þyngsli, reiði, yfirþyrmandi tilfinningu, streitu, gremju, þreytu, vanlíðan eða sorg? Tilfinningarnar sem vakna við ákveðnar hugsanir eru leiðarvísir þinn. Ef þú eltir góðu tilfinningarnar og notar þær sem innblástur til verka, þá ert þú á leið þinni að skapa það líf sem þú vilt. Og í raun, þegar þú dvelur í þessum jákvæðu tilfinningum, þá ertu þegar komin á þann stað sem þú þráir að vera, vegna þess að allt sem við viljum og þráum, er vegna þess að við trúum því að þessir hlutir muni láta okkur líða á þennan sama hátt.


Skilyrðislaus vellíðan
Láttu þér líða Vel, þú átt allt það besta skilið. Náðu í tilfinninguna sem heitir Frelsi. Hún býr í brjósti okkar allra. Baðaðu þig í henni. Finndu tilfinningarnar sem fylgja í kjölfarið. Ást, Gleði, Alsæla. Þessar tilfinningar eru öllum aðgengilegar Hér og Nú.

Mynd tekin af Natalíu Leu Georgsdóttur

Um höfund

Dr. Siggú
Dr. SiggúDoktor í matvælafræði, ICF heilsumarkþjálfi og heildrænn nuddari
“Ég hef komist að því að það er allt hægt, og þá meina ég ALLT. Ég hef sjálf áorkað ótrúlegum hlutum á ótrúlega stuttum tíma. Með ákveðnum hugsanahætti og venjum hefur mér tekist að ná öllum markmiðum sem ég hef sett mér í gegnum tíðina. En þegar einu markmiði er náð þá tekur annað við, og svo koll af kolli, þannig að þetta er í raun aldrei “búið”. Þannig hef ég komist að því hversu mikilvægt það er að njóta ferðalagsins. Og það er list að njóta, sem maður þarf að temja sér. Lífið er til þess að njóta og skapa, það er mitt mottó.”

Dr. Siggú, fullu nafni Sigrún Mjöll Halldórsdóttir, lauk doktorsprófi í matvælafræði frá Háskóla Íslands árið 2013. Samhliða náminu starfaði Sigrún í Matís sem sérfræðingur og verkefnastjóri á Líftæknisviði í um 10 ár. Doktorsverkefni Sigrúnar fjallaði um lífvirka eiginleika vatnsrofinna fisk próteina og bóluþangs. Hún þróaði aðferð þar sem hún notaði andoxunareiginleika bóluþangsins til þess að hámarka gæði og lífvirkni próteinanna. Sigrún skrifaði einkaleyfa umsókn þar sem aðferðinni var lýst. Í kjölfarið var stofnað sérstakt Hugverkasvið á skrifstofu forstjóra og kostaði fyrirtækið Sigrúnu í mastersnám í lögræði í Háskólanum í Reykjavík. Hún kláraði fyrri ár námsins með ágætum árangri, en var svo sagt upp hjá Matís vegna fjárhagserfiðleika hjá fyrirtækinu. Sigrún ákvað að snúa sér alfarið að öðru og hóf nám í markþjálfun hjá Markþjálfasetrinu. Sigrún útskrifaðist sem ICF markþjálfi árið 2018. Þá hefur Sigrún góða reynslu í nuddi, og kynnt sér vel aðferðir dáleiðslu. Nú notar Sigrún sína þekkingu og reynslu til þess að hjálpa öðrum að öðlast það sem þeir vilja ná fram í sínu lífi, með sérstaka áherslu á lífsstíl og hugsanahátt. Sigrún hefur keppt tvisvar í fitness, og stefnir á að keppa áfram a.m.k. einu sinni á ári næstu árin.

Nánari upplýsingar og bókanir: DrSiggu.is