Húð sem glóir af heilbrigði

Til að hafa og viðhalda heilbrigðri húð, þarf að huga að nokkrum þáttum. Húðin þarf umhyggju, athygli, heilbrigða næringu og getur streita valdið vandamálum í húðinni, eins og annarsstaðar í líkamanum. Húðin er okkar stærsta líffæri og okkar fremsta víglína gegn áreiti og efnum umhverfisins. Gefur að skilja að umhirða hennar skiptir máli. 

Það sem við látum ofan í okkur, það sem við nærum okkur og þar með húðina með, gerir mikið til að viðhalda geislandi heilbrigðri húð. Heilbrigð húð krefst heilbrigðs lífsstíls og er mataræði stór hluti af því.

Hvað er heilbrigður lífsstíll?

Skoðum mataræði fyrst. Lengi má deila um það hverskonar mataræði er ákjósanlegast fyrir heilbrigðan lífstíl, sér í lagi eru skoðanir og jafnvel greinar með misvísandi og misjöfn skilaboð til almennings. Enda miklir fjármunir í húfi.

Til að finna úr þessu á sem einfaldastan hátt er sniðugt að skoða það sem nefnt hefur verið ,,Bláu svæðin“ (e. Blue Zones), þar sem langlífustu og heilbrigðustu íbúar jarðarinnar búa, en þeir eiga það sameiginlegt að: hreyfa sig mikið, dvelja mikið útivið og borða nánast eingöngu lítið unnið, plöntumiðað fæði.

Til að fá húðina til að glóa af heilbrigði þarf að huga að nokkrum þáttum í mataræðinu: drekka nóg vatn, forðast áfengi og ekki reykja. Einnig mæli ég með að sneiða alfarið hjá mjólkurvörum vegna bólgumyndunar. Læknar ráðleggja sjúklingum sínum í síauknum mæli að borða ekki mjólkurvörur eftir aðgerðir, þar sem þær valda bólgum sem geta hamlað bataferlinu. 

Gott er að tryggja hreyfingu í sogæðakerfinu, með þurrburstun, nuddi, jógastöðum þar sem farið er á hvolf (e. Inversion Yoga). Slíkar stöður koma hreyfingu af stað í sogæðakerfinu og eru góðar við bæði appelsínuhúð og til varnar bjúg. Síðast en ekki síst er mikilvægt að innbyrða nóg af hollri fitu.

Hvað er holl fita?

Þegar hugað er að fitu í mataræðinu er ákjósanlegast að velja fæðutegundir sem ekki hafa verið berstrípaðar allri annarri næringu, þannig að ekkert situr eftir nema fitan. Olíur eru mikið unnin matvæli, rétt eins og hvítur sykur hefur hún verið unnin og meðhöndluð að því marki, að ekki er hægt að finna slíka matvöru í náttúrunni. Áður en valið er í matarkörfuna er skynsamlegt að skoða hversu mikið matvaran hefur verið unnin, áður en hún ratar í körfuna. Líkamar okkar þróuðust á hundruðum þúsunda ára. Margar af þessum algengustu mikið unnu og hreinsuðu olíum ætlaðar í matargerð komu á markaðinn fyrir einhverjum áratugum síðan. Líkami okkar er ekki hannaður til að neyta slíkra matvæla. 

Þegar við neytum fitu, er mikilvægt að henni fylgi allt sem henni var ætlað að fylgja. Trefjarnar sem eru náttúrulega til staðar í matvælinu, skafa fituna úr æðaveggjum okkar og minnka því líkurnar á hjarta- og kransæðasjúkdómum. Olíur innihalda einnig hátt magn af Omega 6, en næringarfræðingar benda á að í hinu dæmigerða mataræði vestrænna þjóða, er hlutfallið milli neyslu á Omega 6 og Omega 3 allt of hátt Omega 6 í hag.

Fæðutegundir sem fengið hafa að halda vatni sínu, trefjum og næringarefnum, óunnin matvæli, eru langsamlega heilsusamlegasti kosturinn. Eins má benda á að ómeðhöndlaðar/óunnar fitur úr jurtaríkinu innihalda engar trans fitur. 

Matvæli sem innihalda hollar fitur eru t.d: lárperur, chia fræ, hampfræ og hörfræ, en þessar fæðutegundir hafa einnig hátt hlutfall af Omega 3 fitusýrum. 

Góð leið til að koma fræjum í mataræðið er að mala þau fyrst í kvörn. Kvörnuð fræ meltast betur og verður upptaka þeirra því mun betri. Svo er einfalt að bæta þeim í súpuna, sósurnar, ávaxta- og grænu hræringana, yfir hafragrautinn o.frv. Hörfræ eru í uppáhaldi hjá mér en utan þess að innihalda einna mest allra fræja af Omega 3, virka þau sem þykkingarefni og geta komið í stað eggja í uppskriftir.

Að lokum er vert að nefna, að mikilvægur hluti af heilbrigðum lífstíl er einnig að koma fram við aðrar verur eins og þú vilt að komið sé fram við þig og þína, ástunda það sem nefnist AHIMSA úr jógafræðunum (e. do no harm).

Um höfund

Berglind Rúnarsdóttir
Berglind RúnarsdóttirJógakennari
"Ég er jógakennari með BS gráðu í matvælafræði, auk þess að vera SCUBA kafari og AIDA fríkafari. Ég hef ástundað jóga, hugleiðslu og öndunaræfingar í yfir 20 ár og snúast áhugamálin yfirleitt um að hámarka heilsu og vellíðan í eigin skinni, og að busla í vatni við hvert tækifæri.
Árið 2006 varði ég þremur mánuðum við köfun við strendur Thailands til að ná PADI köfunarmeistararéttindum (e. Dive Master). Það var þá sem ég gerði mér grein fyrir mikilvægi stjórnaðrar öndunar. Ég leitast sífellt við að bæta við mig kunnáttu í ýmiskonar öndunartækni, t.a.m. Wim Hof, Buteyko, Soma o.fl."

Viltu bóka tíma í fyrirlestur eða einkatíma? Hafðu samband á brglndyoga@gmail.com