Hvað er kynþokki?

Kynþokki er ekki eitthvað sem er bundið við útlit, framkomu eða stöðu. Kynþokki kemur innan frá. Manneskja sem að upplifir sig kynþokkafulla er kynþokkafull, svo einfalt er það. Mælikvarðinn er ekki hversu margir aðrir laðast að henni, heldur hvernig henni líður í eigin skinni. Að vera kynþokkafullur er hafa gott sjálfsmat, standa með sjálfum sér, vera laus undan skömm, og leyfa sér að vera sú manneskja sem maður vill vera. Fólk á það til að skammast sín fyrir þessa hlið á sér, bæla hana niður og leyfa henni ekki að njóta sín. Staðreyndin er sú að við erum kynverur og höfum rétt á því að njóta þess. 

Það mega allir vera kynþokkafullir. Það er ekki einhver ákveðinn hópur sem hefur einungis rétt á því að vera kynþokkafullur, t.d. fólk á aldrinum 20-30 ára á meðan á makaleit stendur. Punktur basta búið. Svo þegar makinn er negldur niður, þá er komið að því að koma sér vel fyrir í flíspeysunni og crocks skónum, fyrir framan imbann að safna vömb saman að eilífu.

Þvert á móti mega stelpur, strákar, mömmur, pabbar, hommar, lesbíur, trans fólk, kennarar, doktorar, viðskiptafólk, ráðherrar, og allir hinir líka, upplifa sig kynþokkafullt og njóta þess að sýna þá hlið á sér. Sannleikurinn er sá að það er eðlilegt og náttúrulegt ástand manneskju að upplifa sig kynþokkafulla. Í náttúrunni fara dýr í ákveðinn ham í þeim tilgangi að vera “kynþokkafullt”. Í dýraríkinu er skömm og niðurrif ekki þekkt. Þar fá öll dýr að vera nákvæmlega eins og þeirra eðli segir til um.

Virðing er gríðarlega mikilvægt gildi sem allar manneskjur hafa rétt á að njóta og gefa. Manneskja sem er kynþokkafull hefur rétt á því að borin sé virðing fyrir henni, nákvæmlega eins og allar aðrar manneskjur. Þegar manneskja sýnir kynþokkafulla tilburði er það ekki ávísun á það henni má sýna vanvirðing. Þvert á móti er það afar virðingarvert þegar fólk hefur hugrekki til að sýna sjálft sig og sína kynferðislegu hlið.

Eins höfum við öll rétt á að stunda og njóta kynlífs. Kynlíf er ekki eitthvað sem þarf að fela og skammast sín fyrir. Þvert á móti er það eðlilegur og óhjákvæmilegur hluti af því að vera lifandi vera. Við erum gerð til að fjölga okkur, og tilgangurinn með þessari jarðvist er að njóta hennar.

Leyfum okkar að njóta alls þess dásamlega sem lífið hefur uppá að bjóða, í staðinn fyrir að hopa undan í skömm og ótta við að ganga nærri siðgæðisvitund annarra. Við höfum ekkert til að skammast okkur fyrir, við megum vera kynþokkafull og við megum njóta kynlífs. Á meðan við sýnum öðru fólki virðingu og tillitsemi (og brjótum engin lög 😉) er allt leyfilegt.

Um höfund

Dr. Siggú
Dr. SiggúDoktor í matvælafræði, ICF heilsumarkþjálfi og heildrænn nuddari
“Ég hef komist að því að það er allt hægt, og þá meina ég ALLT. Ég hef sjálf áorkað ótrúlegum hlutum á ótrúlega stuttum tíma. Með ákveðnum hugsanahætti og venjum hefur mér tekist að ná öllum markmiðum sem ég hef sett mér í gegnum tíðina. En þegar einu markmiði er náð þá tekur annað við, og svo koll af kolli, þannig að þetta er í raun aldrei “búið”. Þannig hef ég komist að því hversu mikilvægt það er að njóta ferðalagsins. Og það er list að njóta, sem maður þarf að temja sér. Lífið er til þess að njóta og skapa, það er mitt mottó.”

Dr. Siggú, fullu nafni Sigrún Mjöll Halldórsdóttir, lauk doktorsprófi í matvælafræði frá Háskóla Íslands árið 2013. Samhliða náminu starfaði Sigrún í Matís sem sérfræðingur og verkefnastjóri á Líftæknisviði í um 10 ár. Doktorsverkefni Sigrúnar fjallaði um lífvirka eiginleika vatnsrofinna fisk próteina og bóluþangs. Hún þróaði aðferð þar sem hún notaði andoxunareiginleika bóluþangsins til þess að hámarka gæði og lífvirkni próteinanna. Sigrún skrifaði einkaleyfa umsókn þar sem aðferðinni var lýst. Í kjölfarið var stofnað sérstakt Hugverkasvið á skrifstofu forstjóra og kostaði fyrirtækið Sigrúnu í mastersnám í lögræði í Háskólanum í Reykjavík. Hún kláraði fyrri ár námsins með ágætum árangri, en var svo sagt upp hjá Matís vegna fjárhagserfiðleika hjá fyrirtækinu. Sigrún ákvað að snúa sér alfarið að öðru og hóf nám í markþjálfun hjá Markþjálfasetrinu. Sigrún útskrifaðist sem ICF markþjálfi árið 2018. Þá hefur Sigrún góða reynslu í nuddi, og kynnt sér vel aðferðir dáleiðslu. Nú notar Sigrún sína þekkingu og reynslu til þess að hjálpa öðrum að öðlast það sem þeir vilja ná fram í sínu lífi, með sérstaka áherslu á lífsstíl og hugsanahátt. Sigrún hefur keppt tvisvar í fitness, og stefnir á að keppa áfram a.m.k. einu sinni á ári næstu árin.

Nánari upplýsingar og bókanir: DrSiggu.is