Leið mín úr kulnun

Pistill þessi er skrifaður í þeirri von að hann rati til þeirra sem tengja og hafa gagn af. Í lok pistilsins tel ég upp þau atriði sem hafa hjálpað mér.

Það var einhvers staðar mitt í eigin kulnun að ég ákvað að skipta um starfsvettvang og verða meðferðaraðili. Innsæið sagði mér að heimurinn þyrfti fleiri heilara. Meiri kærleika. Ég varð þess áskynja að ég var ekki sú eina sem var að eiga við frekar harkalegt burn out. Lífsbruna. Þegar maður á ekkert eftir.

Það að eignast þriðja barnið og fara svo aftur að vinna 100% stjórnunarstarf reyndist mér ofviða. Of mikið álag í vinnunni, of mikið álag heima og svo varð dauðsfall í fjölskyldunni. Kulnunin mín átti sér stað á sirka tveggja ára tímabili og varð til þess að ég gufaðist einhvern veginn áfram á þeim litlu gufum sem eftir voru í varatankinum sem kláraðist að endingu líka og ég endaði í algerri örmögnun.

Það kemur mér alltaf jafnmikið á óvart hvað margir hafa svipaða sögu að segja. Oft útivinnandi margra barna mæður. Flestir hafa svipaða sögu að segja. Að hafa klesst á vegg. Líkaminn einfaldlega getur ekki meir. Oftast kemur kvíði við sögu svo og almenn ofþreyta, streita og langvarandi álag.

Í miðri kulnun fór ég til Bali á sjálfstyrkingarnámskeið þar sem Ósk kenndi þerapíuna Lærðu að elska þig. Hún kenndi mér margt, meðal annars það að ef maður hlustar ekki á það sem er verið að segja manni, eins og til dæmis þegar líður yfir mann af streitu og maður fær kvíðaköst á nóttu sem og degi, þá verða afleiðingar. Lífið fleygir manni á vegg. Ef maður hlustar ekki á þessar vísbendingar þá verða afleiðingar. Ósk kenndi mér að kvíði kemur þegar þú svíkur hjarta þitt.

Núna ætla ég, kæri lesandi, að benda þér á þau atriði sem hjálpuðu mér á minni vegferð.

  • Best er að komast út úr þeim aðstæðum sem eru að sjúga til sín alla þína orku. Ef það er ekki í boði þá að koma sér út úr aðstæðunum í einhvern tíma.
  • Hættu að svíkja hjarta þitt, hlustaðu á þína innri veru, minnkaðu álagið.
  • Hugleiddu. Hugleiðsla er besta verkfærið í átt að góðri andlegri heilsu. Það er mjög gott að byrja daginn á hugleiðslu. Dæmi um eina slíka er í enda pistilsins.
  • Öndunaræfingar eru gulls ígildi. Þú getur prufað að fletta upp Soma eða Wim hof á Youtube og fundið góðar æfingar.
  • Hreyfðu þig. Hvort sem það er göngutúr, yoga, sund eða ræktin þá hefur það verið margsannað að hreyfing færir þér vellíðan og róar taugakerfið.
  • Náttúran. Farðu út í náttúruna og vertu eins mikið í henni og þú mögulega getur. Orkan í náttúrunni er mjög há þannig að ef þig vantar orku þá er náttúran besti staðurinn til þess að vera á.

Kæri lesandi, ég ætla að enda þennan pistil á dæmi um einfalda hugleiðslu sem allir ættu að geta gert. Í bókinni Eat, pray, love þegar Liz er á Bali, kennir Ketut, tannlausi gamli heilarinn henni einfalda hugleiðslu sem snýst um að hugleiða brosandi. Setja broskall á/í hjartað, lifrina og hin ýmsu líffæri. Gott er að gera þessa hugleiðslu í 20 mínútur og brosa allan tímann. Ketut sagði að þessi hugleiðsla gæfi af sér sæta orku og myndi gera Liz aðlaðandi í augum karlmanna. Viti menn. Stuttu síðar lenti Liz á séns með brasilísku sjarmatrölli sem hún endaði með að vera í sambandi við.

Um höfund

Svava Ólafsdóttir
Svava ÓlafsdóttirHeilsunuddari
„Ég hef stundað yoga og hugleiðslu í kringum 17 ár núna og er alltaf að leiðast meir inn á hina andlegu braut. Nýt þess að fara á cacao seremóníur, KAP kvöld eða út með vinkonum mínum. Heillast alltaf meir og meir að náttúrunni og öllu sem henni tilheyrir; lífrænn matur, ilmkjarnaolíur, ferskleikinn, hreinleikinn. Elska að vera úti í náttúrunni, helst við foss eða læk. Þar líður mér best. Hef nýlega byrjað að gera öndunaræfingar hluta af morgunrútínunni minni og er að heillast af dáleiðslu líka. Nudd er mikið meira en bara nudd fyrir mér. Ég geri mitt besta til að vera vel kjörnuð áður en ég fer að vinna og byrja flestalla vinnudaga á því að fara út í náttúruna, fá mér cacao bolla og tengja mig við hið æðra.“
Svava Ólafsdóttir útskrifaðist sem heilsunuddari frá FÁ vorið 2020. Hún starfar sem nuddari og er með aðstöðu í Yogashala í Skeifunni 7 í Reykjavík. Hún fer líka í fyrirtæki og nuddar starfsfólk þar. Nuddið hennar er aðallega heildrænt en hún býður upp á margar týpur af nuddi svo sem svæðameðferð (reflexology), klassískt-, íþrótta-, sogæða- og meðgöngunudd.
Tímapantanir eru í gegnum facebook síðuna Nudd hjá Svövu eða Instagram reikning með sama nafni.
https://www.facebook.com/nemanuddsvovu.is
https://www.instagram.com/nuddhjasvovu/