Já, hvernig væri að líta sem snöggvast í spegilinn og kynnast ögn betur persónunni sem þú sérð þar? Þekkir þú þennan einstakling? Hversu vel þekkir þú þessa persónu? Þið hafið jú farið saman í gegnum sætt og súrt um all nokkra hríð, það ferðalag hefur jafnvel tekið nokkra áratugi. Þessi tími hefur að öllum líkindum flogið afar hratt hjá þegar litið er til baka, þó svo að stundum hafi tíminn virst standa algjörlega í stað ………  hefur hreinlega aldrei ætlað að líða.

Líttu nú aftur í spegilinn. Veltu því fyrir þér hvernig samband þú hefur ræktað við spegilmynd þína – þ.e. þig? Manneskjan sem þú sérð í speglinum, hvort er þetta besti vinur þinn eða mesti óvinur þinn? Hvernig talar þessi persóna um þig í áheyrn annarra. Er hún stolt af þér og hrósar þér – eða er hún gjörn á að afsaka allt í fari þínu, skammast hún sín fyrir þig? Finnst henni allt ómögulegt við þig? Talar hún um hvað þú sért illa fær um að gera hlutina rétt, þér sé alltaf að „mistakast“ eitthvað? Ef hún talar svona um þig í áheyrn annarra, hvernig hefur hún þá  talað um þig þegar hún heldur að enginn heyri til? Hvers konar hugsanir hafa verið ríkjandi í huga hennar um ágæti þitt, glæsileika þinn, hæfni þína og hæfileika á ótal sviðum. Skyldu þær hugsanir hafa verið jákvæðar og hvetjandi – eða  er líklegra að þær hafi verið í svipuðum niðurrifstón og það hvernig hún talaði um þig við aðra? Hafa hugsanirnar ef til vill verið mörgum sinnum neikvæðari heldur en það sem hún sagði? Sýnir hún ekki ansi mikla dómhörku í þinn garð? Er eitthvað vit í þessu? Hvað finnst þér?

Staldraðu nú við og leggðu þig eftir því að kynnast mun betur þessari persónu sem þú sérð í þarna í speglinum.  Kynnstu henni vel og gefðu þér tíma til að rækta  innihaldsríkt kærleikssamband við hana. Rifjaðu upp hverjir voru draumar hennar, markmiðin hennar, áhugamálin hennar, hver var hún og hver er  hún í dag? Hvar er hún stödd og hvers vegna? Ef hún er ekki sátt, fáðu hana þá til að skilja að hún getur breytt aðstæðum sínum til betri vegar. Hún stendur ekki ein þó henni líði þannig stundum. Víða í kringum hana eru fólk sem vill styðja hana og styrkja til heilbrigðari sjálfsmyndar og meiri hamingju.

Sestu niður í 20 mín. útaf fyrir þig og gefðu þér tíma til að skoða lífshlaupið þitt og síðustu mánuði alveg sérstaklega. Skoðaðu hamingjuna í lífi þínu. Þó margt virðist erfitt, þungt og alveg kolómögulegt þá er líka alveg víst að þið, þú og persónan í speglinum, getið verið sammála um að það er líka margt jákvætt sem hefur gert þig að því sem þú ert í dag. Leyfðu þér að njóta þess. Reyndu að finna hvernig tilfinningar þínar breytast og andleg eða „innri“ líðan þín breytist þegar þú rifjar upp jákvæða og eflandi hluti og svo hvað orkan verður öðruvísi og miklu þyngri þegar þú hugsar um alla neikvæðu þættina sem þér er svo tamt að einblína á.

Finnst þér að þú þurfir að breyta einhverju í lífi þínu? Aðeins þú veist rétta svarið við þessu. Deildu svarinu með spegilmyndinni, sýndu henni þann heiðarleika og virðingu að segja henni sannleikann. Lygavefir geta orðið svo ansi flóknir með tímanum, ekki síst á milli þín og spegilmyndar þinnar. Sýndu henni smá umburðarlyndi og kærleika, hættu að skammast út í hana vegna allra þeirra ótal mistaka sem henni hafa orðið á í gegnum tíðina. Við breytum ekki eftir á, það er sama hvað hefur gerst hingað til, þær aðstæður þurfa á engan hátt að vera lýsandi fyrir framtíð þína. Þú hefur val, nýttu það. Blómstraðu og njóttu þess að vera þú!

Bestu kveðjur
Jóna Björg Sætran, M.Ed., kennari, markþjálfi og HAM
www.coach.is
coach@coach.is

 

Mynd: Vinicius Amano hjá Unsplash

Höfundur

Jóna Björg Sætran
Jóna Björg Sætran
M.Ed., kennari, ICF markþjálfi, HAM
- starfar við markþjálfun, hugræna atferlismeðferð, námstækni, samtalsmeðferðir, fyrirlestra, kennslu og námskeiðahald.
» Nánari upplýsingar og tímabókanir
  • 8 Posts
  • 0 Comments
M.Ed., kennari, ICF markþjálfi, HAM - starfar við markþjálfun, hugræna atferlismeðferð, námstækni, samtalsmeðferðir, fyrirlestra, kennslu og námskeiðahald. » Nánari upplýsingar og tímabókanir