Nálastungur fyrir betra orkuflæði

Ég er oft spurð hvað nálastungur eru og hvernig það virkar til að auka vellíðan og heilsu.

Nálastungum er beitt til þess að koma jafnvægi á líkama og andlega líðan. Yfirleitt eru notaðar tvær eða fleiri nálar í einu. Þær eru settar á vissa staði líkamans, svokallaða orkupunkta, eða nálastungupunkta, á orkurásakerfi líkamans, eins og kínverska læknisfræðin skilgreinir það. Með því er verið að leitast eftir að koma jafnvægi á orkuflæði líkamans og draga þannig úr verkjum og öðrum kvillum.

Margir gera sér ekki grein fyrir því en nálastungulækningar eru í raun ævafornt kerfi lækninga. Upphaflega kom það frá Kína og því kallaðar kínverskar lækningar. Í dag eru nálastungur notaðar víðsvegar um heiminn til ýmis konar heilsubótar.

Nálastungur eru byggðar á flókinni og nákvæmri greiningu og þörfum hvers og eins. Nálastungur eru skráðar sem heildrænar meðferðir og eru miðaðar að því að hjálpa og viðhalda heilbrigði manneskjunnar á heildrænan hátt, þar sem kínversk læknisfræði gengur út frá því að líkami og andi séu ein heild.

Þegar unnið er með einhvern ákveðinn kvilla þá er verið að meðhöndla margt annað í leiðinni þannig að einstaklingurinn fær ekki bara bata á tilteknu svæði heldur líka á annars staðar í líkamanum og andlegri líðan.

Nálastungurmeðhöndlarinn leitast eftir að stuðla að og viðhalda jafnvægi í orkuflæði nálastunguþegans, m.a. með því að leita upp hvar stíflur og ójafnvægi finnst í orkuflæðinu, samkvæmt kínversku læknisfræðinni.

Önnur spurning sem ég fæ reglulega líka er hvort nálastungur séu óþægilegar, sem er mjög eðlileg og skiljanleg spurning.

Nálar sem eru notaðar í nálastungumeðferð eru mjög þunnar og finnst því mun minna fyrir þeim þeim heldur en þegar maður er sprautaður eða fengin blóðprufa.

Maður getur jú fundið örlítið þegar nálin fer í gegnum húðina en það er frekar svipað eins og smá straumur þegar nálin hittir á orkupunktinn.

Lengd hverrar meðferðar í nálastungum fer eftir því hvað verið er að meðhöndla hverju sinni og hvort notast þurfi við aðra meðferð með eins og til dæmis nudd. Tíminn gæti því verið frá 30 til 50 mínútur, jafnvel lengur.

Nálarnar eru einnota og svo lengi sem meðhöndlarinn er fagmaður í nálastungum þá er talið öruggt fyrir alla að fara í svoleiðis meðferð.

Stundum gæti þurft fleiri en eitt skipti til að ná árangri í meðhöndlun, en það fer eftir því hvert vandamálið er og hversu lengi það hefur staðið yfir. Ef vandamálið er búið að standa yfir lengur en 6 mánuði telst það orðið krónískur verkur og gæti því þurft nokkur skipti til þess að draga alveg úr einkennum en strax eftir fyrsta tíma ætti strax að létta eitthvað á verkjum og vanlíðan.

Fyrsta skrefið er að hafa samband og ræða málin um hvaða vandamál er í gangi og hvernig hægt væri mögulega að eiga við það.

Um höfund

Svandís Birkisdóttir
Svandís BirkisdóttirHjúkrunarfræðingur & heildrænn meðferðaraðili