Njótum líðandi stundar

Sérhver stund skiptir máli

Hvers vegna erum við nær alltaf að flýta okkur? Við hlöðum á okkur verkefnum og erum á hlaupum við að ná að ljúka þeim öllum á tilsettum tímum. Erum við að flýta okkur um of? Önum við þá líka stundum áfram beint af augum og tökum alls ekki eftir viðvörunarljósunum sem taka að blikka umhverfis okkur eða innra með okkur. Hvers vegna höfum við ekki vit fyrir okkur sjálfum og hægjum á okkur í tæka tíð til að njóta ilmsins af lífinu á meðan við höfum tækifæri til? Líðandi stund kemur ekki tilbaka.

Gefum okkur meiri tíma til að sinna okkur sjálfum og fólkinu okkar betur. Fjölgum gæðastundunum með þeim sem skipta okkur mestu máli. Hlustum á fólkið okkar, hlustum virkri hlustun og heyrum hvað þau segja. Sýnum þeim áhuga, tökum þátt. Hjálpum þeim við að komast sem áfallaminnst í gegnum barna- og unglingsárin.

Lítum í eigin barm

Aðstæður okkar í dag þurfa ekki að vera lýsandi fyrir framtíðina. Ef við erum ekki sátt með eitthvað í lífi okkar þá er það á okkar ábyrgð að gera eitthvað í málunum en við erum hinsvegar svo gjörn á að vilja breyta öðrum til að okkur líði betur. Við viljum að aðstæður breytist þannig að okkur líði betur, verðum hamingjusamari og glaðari. Hvað erum við að gera í málunum? Byrjum hjá okkur sjálfum.


Ég um mig frá mér til mín

Það gerist margt á einni lífsleið enda eru þar margir hliðarstígar og moldartroðningar. Í dag er nýr dagur og þú getur leitað eftir því jákvæða og uppbyggilega. Byrjaðu innra með þér.
Hvaða skilaboð sendir þú öðrum um þig?
Hvernig talar þú um þig við aðra?
Hvernig líður þér gagnvart þér? Hvað með sjálfstraustið og sjálfsálitið? Hvaða breytingar viltu gera á því hvernig þú kemur fram við aðra?
Hvernig viltu breyta þvi hvernig þú talar við og HLUSTAR á þína nánustu?

Breyttu samkvæmt því sem þér finnst rétt, þú þarft ekki að fylgja fjöldanum, fylgdu hjartanu.

Njótum líðandi stundar, höfum jákvæð áhrif á aðstæður okkar með því að skoða hvað má betur fara í fari okkar sjálfra. Eflum sterku hliðarnar okkar, vinnum í því að auka sjálfstraustið og lífsgleðina. Þannig verður auðveldara að hafa jákvæð áhrif á það sem er að gerast í kringum okkur. Blómstraðu! Njóttu þess að vera þú!

Bestu kveðjur

Jóna Björg Sætran M.Ed., markþjálfi, HAM, fyrrv. námsstjóri
coach@coach.is

Um höfund

Jóna Björg Sætran
Jóna Björg SætranM.Ed., kennari, ICF markþjálfi, HAM
- starfar við markþjálfun, hugræna atferlismeðferð, námstækni, samtalsmeðferðir, fyrirlestra, kennslu og námskeiðahald.

Starfssvið Jónu Bjargar Sætran einkennist af því að samnýta þekkingu sína og reynslu af menntunarfræðum, áratuga reynslu af kennslu í grunn- og framhaldsskólum, markþjálfun, hugrænni atferlismeðferð, námskeiðahaldi, fyrirlestrum, kennslufræði, fyrirtækjarekstri og árangursfræðum í víðum skilningi til að opna fólki sýn á mátt einstaklingsins til að hafa áhrif á eigin velferð, vellíðan og lífshamingju.

Namstaekni.is
FengShui.is