Sjálfsvirðing, sjálfsímynd og sjálfstraust á erfiðum tímum

Berð þú virðingu fyrir þér?
Sjálfsvirðing er hvorki mont né hroki. Sjálfsvirðing er m.a. að meta að verðleikum það sem þér hlotnaðist í vöggugjöf og þér hefur tekist að rækta og láta dafna í gegnum árin. Það þarf að læra að meta hið ómetanlega í lífinu, s.s. góða heilsu og skýra hugsun sem hvorugt er sjálfgefið. Þú verður að leggja þig fram við að nýta hug þinn sem best. Þetta er eitt af því sem enginn getur gert fyrir þig. Þetta er þitt líf og þú berð mesta ábyrgð á eigin lífshamingju.

Sjálfsvirðing
Þér er mikilvægt að vera í all góðri sátt við eigin persónu því annars er hæpið að gleðin yfir jafnt litlu sem stóru sigrunum á lífsleiðinni staldri lengi við. Góð sjálfsímynd og gott sjálfstraust eru hornsteinar persónulegrar velgengni, vellíðunar og hugarró. Sjálfstraust er ekki meðfætt heldur áunnið. Það skiptir því ekki öllu máli hve óánægð(/ur) þú ert í dag með þig, þú getur heldur ekki breytt neinu sem er liðið. Þú getur hins vegar ákveðið að fara í smá sjálfsskoðun, vinna að því að ákveða hvað þú vilt.
– Fyrir hvað stendur þú?
– Hver eru gildin þín?
– Hvernig viltu að barnabörnin þín minnist þín?
– Á hvaða ferðalagi ertu?
– Hvert viltu fara og hvers vegna?

Ef til vill uppgötvar þú að þú hefur ekki haft nein ákveðin gildi að leiðarljósi um nokkurn tíma heldur hefur þú látið þig berast með straumnum. Hugsanlega hefur þú meira að segja aldrei ákveðið sérstök gildi til að einkenna líf þitt og starf.

Gildin þín lýsa þér sem persónu, þau segja til um hvers sé að vænta af þér. Gildin þín eru þér heilög. Þú skiptir ekki á þeim og öðrum verðmætum, ekki einu sinni gulli og grænum skógum. Gildin þín segja til um hver þú ert, jafnvel alveg  óháð því sem þú ert að fást við daglega. Þegar þú gerir eins og „samviska“ þín bíður þér, þá vinnur þú að því að efla sjálfsímynd þína. Þegar þú ræktar gildin þín meðvitað þá er það í krafti sjálfsvirðingar. Við þetta styrkist sjálfstraustið.

Ef þú berð ekki virðingu fyrir þér og tilfinningum þínum, þá getur þú varla ætlast til þess að aðrir geri það.

Vertu á varðbergi gegn eigin athöfnum og einnig gegn eigin framkvæmdaleysi.
Hvernig viltu að líf þitt sé? Ef það er öðruvísi en þú vilt hafa það, hugleiddu þá inn á þær breytingar sem þú vilt gera og skrifaðu síðan lýsingu á því hvernig daglegt líf þitt tekur við sér og fer að blómstra enn betur en hingað til. Settu þér tímamörk fáeina mánuði fram í tímann. Vertu sem forstjóri og framkvæmdastjóri í eigin lífi. Búðu til þá ímynd af þér sem þú vilt að sé í raunveruleikanum.

Sýndu þér þá virðingu að byggja upp sjálfsímyndina á ný.
Þetta hljómar ofur einfalt en oftar en ekki reynist þetta oft talsvert erfitt og það getur orðið auðvelt að gugna rétt áður en markmiðinu er náð, einkum ef ferðalangurinn er einn á ferð. Finndu þér ferðafélaga. Finndu þér vin á meðal vina þinna, einhvern sem vill líka vinna markvisst að því að ná markmiðum sínum. Ef vinirnir eru vandfundnir, þá er líka hægt að leita út fyrir vinahópinn því að í dag má víða finna aðila sem eru boðnir og búnir til að veita öðrum jákvæða nærveru og stuðning á byggingarpöllum sjálfstrausts og sjálfsímyndar. Þeir vita sem er að allt sem þeir veita af heilum hug og hlýju hjarta kemur margfalt tilbaka. Þú leggur eigin stíg til framtíðar, það verður aldrei bein braut og það er líka í lagi að taka sér smá hvíld á leiðinni. Aðalatriðið er að fara aftur af stað og halda áfram að settu marki. Þegar þú kemur að krossgötum, taktu því þá fagnandi að þú ert ekki á blindgötu. Á krossgötunum áttu ýmsa möguleika og hvaða átt þú velur er undir þér komið. Hugsaðu út fyrir rammann, þar liggja óvirkjuð öfl sem bíða eftir því að þú eða aðrir komi auga á óþrjótandi tækifæri sem bíða okkar allra. Þú ert miklu sterkari en þig grunar. Þú getur svo margt – ef þú reynir!

Vegni þér vel!

Bestu kveðjur

Jóna Björg Sætran, kennari, M.Ed., markþjálfi og HAM
www.coach.is
coach@coach.is

 

Mynd: Alex Perez hjá Unsplash

Höfundur

Jóna Björg Sætran
Jóna Björg Sætran
M.Ed., kennari, ICF markþjálfi, HAM
- starfar við markþjálfun, hugræna atferlismeðferð, námstækni, samtalsmeðferðir, fyrirlestra, kennslu og námskeiðahald.
» Nánari upplýsingar og tímabókanir
  • 8 Posts
  • 0 Comments
M.Ed., kennari, ICF markþjálfi, HAM - starfar við markþjálfun, hugræna atferlismeðferð, námstækni, samtalsmeðferðir, fyrirlestra, kennslu og námskeiðahald. » Nánari upplýsingar og tímabókanir