Streituvaldar í daglegu lífi sem þú getur umbreytt

Að vera meðvitaðri um það sem hefur bein eða óbein áhrif á okkur úr umhverfi okkar gerir okkur auðveldara með að umbreyta því.

Það geta verið mörg atriði sem hafa áhrif á okkur í mis miklum mæli.  Lítum á nokkur dæmi sem eru oft notuð til að mæla streitu hjá fólki.

 • Upplifir þú þig fasta/nn í aðstæðum sem þú getur ekki breytt?
 • Finnst þér erfitt að tala við annað fólk?
 • Notar þú mikinn tíma í að hafa áhyggjur af framtíðinni?
 • Situr þú á áliti þínu ef þú heldur að það gæti móðgað aðra?
 • Hættir þú við að gera það sem þig langar að gera, ef það er mögulega ekki í samræmi við hvað aðrir vilja?
 • Frestar þú hlutunum þangað til á síðustu stundu til þess að þurfa síður að takast á við það sem því fylgir?
 • Missir þú oft tökin á skapi þínu?
 • Grætur þú auðveldlega?
 • Hefurðu aldrei tíma fyrir sjálfa/n þig?
 • Áttu erfitt með að þola krefjandi aðstæður?
 • Hefur þú ekki griðarstað heima hjá þér?
 • Hefurðu sektarkennd yfir því að sjá ekki betur fyrir fjölskyldu þinni?
 • Finnst þér leitt að hafa ekki meiri tíma aflögu með vinum þínum?
 • Er of mikið álag í vinnunni?
 • Finnst þér stöðug áreiti í kringum þig trufla þig frá einbetingu á það sem skiptir þig máli?
 • Ertu alltaf að flýta þér?
 • Leiðist þér í vinnunni?
 • Missir þú gjarnan tökin á skapinu þínu þegar það er ekki tími til að klára verkefnin þín?
 • Er auðvelt að koma þér úr jafnvægi?
 • Er erfitt fyrir þig að slaka á?
 • Ertu komin/n með nóg af því að vera alltaf í stresskasti?

Það getur verið erfitt að uppgötva hvaða atriði það eru sem hafa neikvæð áhrif á okkur og valda okkur streitu. Oft uppgötvast það ekki fyrr en einhver annar byrjar að tala um það, eða ef við tökum eftir einhverjum sem er að sýna samskonar einkenni eða hegðun og við sjálf. En hvað erum við að gera til að uppgötva þessi hegðunarmynstur í okkur sjálfum? Finnst okkur það bara hreinlega of erfitt að reyna breyta einhverju sem virðist vera nú þegar búið að skjóta djúpum rótum hjá okkur? Eða tökum við ákvörðun um að gera eitthvað almennilega í því og sjá til þess að raunveruleg breyting eigi sér stað?

Skilaboð frá líkamanum um streituvalda

Nú vaknar því spurningin, hvað viljum við í rauninni?  Við finnum spennuna hlaðast upp ef við byrjum að hugsa um eitthvað sem framkallar innri áhyggjur eða streitu. Við finnum magann herpast saman, þungan hausverk, orkuleysi o.fl. Hugur okkar byrjar að upplifa vanlíðan vegna ójafnvægis innra með okkur, sem byrjar svo að koma líka fram í líkamanum.  Það er því tilvalið að hlusta á líkamann og þau skilaboð sem hann er að senda okkur, og byrja að gera viðeigandi ráðstafanir.  Þannig getum við byrjað að hafa stórtæk áhrif á virkni streituvaldanna, og jafnvel haft bætandi áhrif á blóðþrýstinginn.

Þegar við dettum og meiðum okkur, þá fáum við venjulega verk á því svæði líkamans sem varð fyrir hnjaski.  En það er þá líkaminn sem er í raun að gefa okkur skilaboð um að þetta svæði þurfi aðhlynningu og aðstoð til að ná fram eðlilegu heilbrigði og vellíðan aftur. Þessi svæði sem þurfa á meðferð að halda, biðja um aðstoð á þennan hátt. Þetta skilvirka (og oft frekar sársaukafulla) skilaboðakerfi virkar ekki aðeins fyrir líkamann, heldur einnig fyrir andlega líðan okkar. Því hefur verið haldið fram að allt sem gerist innra með okkur andlega (í hugarástandi okkar) mun á endanum koma fram í líkama okkar, og þá sérstaklega ef það er nógu sterkt.

Gerðu þér stóran greiða og mundu eftir að hlusta á líkamann þinn næst þegar hann hrópar eftir athygli, notandi hvaða leið sem honum býðst (t.d. með sársauka) til að vera í samskiptum við þig. Gríptu strax til viðeigandi aðgerða frekar en að bíða of lengi með það.

Hlustaðu.

Höfundur

Hjalti Freyr Kristinsson
Hjalti Freyr Kristinsson
Markþjálfari IFC, dáleiðslutæknir Dip.CH., heilsunuddari FÍHN og kerfisfræðingur.
» Nánari upplýsingar og tímabókanir
 • 3 Posts
 • 0 Comments
Markþjálfari IFC, dáleiðslutæknir Dip.CH., heilsunuddari FÍHN og kerfisfræðingur. » Nánari upplýsingar og tímabókanir