Svæðameðferð – reflexology

Það eru margar leiðir til að slaka á. Hér ætla ég að benda á eina af mínum uppáhalds; svæðameðferð (reflexology.)

Í nuddskólanum var svæðameðferð einn af uppáhalds kúrsunum mínum (enda fékk ég 10.) Ástæðan er sú að þegar ég fékk sjálf þessa meðferð (við æfðum okkur á hvort öðru) fann ég djúpslökun og endurnæringu sem ég hafði ekki fundið áður. Með öðrum orðum er þetta ein mest slakandi og endurnærandi meðferð sem ég hef fengið. Meira slakandi en nudd. Hvað er líka betra en fótanudd?

Það eina sem nuddþegi þarf að gera er að mæta, fara úr skónum og sokkunum og leggjast á bekkinn. Þar er þér nokkurn veginn pakkað inn í bómul (já eða teppi) þar sem þitt eina verkefni er að slaka á næsta klukkutímann.

Meðferðaraðilinn byrjar á að tengja sig og fer síðan að vinna á fótunum þínum. Á iljunum er að finna eins konar kort af öllum líkamanum þar sem hvert líffæri og hver staður á líkamanum á sinn punkt. Sitt svæði. Á iljunum er líka að finna punkta fyrir orkustöðvarnar þínar og líkamskerfin; meltingafærakerfið, sogæðakerfið, öndunarfærakerfið, þvagfærakerfið og innkirtlana. Þarna eru líka orkubrautapunktar og duldir lækningarmáttspunktar eins og ég vil kalla þá. Sólarplexusinn er til dæmis að finna á ilinni. Það er í rauninni hægt að finna lækningarpunkt á ilinni þinni við flestum líkamlegum kvillum.

Þegar nuddarinn þrýstir á þessa punkta örvar hann líkamann til að hreinsa sig sjálfur eins og María Norðdahl (sem samdi kennslubókina sem við fengum) skrifar. Nuddarinn örvar þannig hinn náttúrulega lækningarmátt sem býr í hverjum líkama. Líkaminn jafnar orkubrautir sínar og nær betra jafnvægi.

Reglubundið svæðanudd dregur úr stressi og spennu nuddþega, bætir blóðrásina, róar taugarnar, dregur úr sársauka, bætir svefn, eykur orkuflæði og þrótt líkamans [og] bætir hæfni líkamans til að hjálpa sér sjálfum.

María Norðdahl

Nuddþegi og meðferðaraðili eru í samspili allan tímann þó að nuddþeginn liggi á bekknum í þögn. Það er sem sagt í lagi að biðja um meiri eða minni þrýsting eftir þörfum. Eins ef þú ert með viðkvæm svæði á fótunum þá er samvinnan alltaf til staðar.

Svæðameðferð býður þér inn í djúpslökun, stuðlar að betri svefni og slakar á öllu taugakerfinu. Hressir, bætir og kætir. Ég hef oft heyrt fólk segja að þau geti loksins andað dýpra eftir meðferðina. Mjög gott við streitu og álagi.

Um höfund

Svava Ólafsdóttir
Svava ÓlafsdóttirHeilsunuddari
„Ég hef stundað yoga og hugleiðslu í kringum 17 ár núna og er alltaf að leiðast meir inn á hina andlegu braut. Nýt þess að fara á cacao seremóníur, KAP kvöld eða út með vinkonum mínum. Heillast alltaf meir og meir að náttúrunni og öllu sem henni tilheyrir; lífrænn matur, ilmkjarnaolíur, ferskleikinn, hreinleikinn. Elska að vera úti í náttúrunni, helst við foss eða læk. Þar líður mér best. Hef nýlega byrjað að gera öndunaræfingar hluta af morgunrútínunni minni og er að heillast af dáleiðslu líka. Nudd er mikið meira en bara nudd fyrir mér. Ég geri mitt besta til að vera vel kjörnuð áður en ég fer að vinna og byrja flestalla vinnudaga á því að fara út í náttúruna, fá mér cacao bolla og tengja mig við hið æðra.“
Svava Ólafsdóttir útskrifaðist sem heilsunuddari frá FÁ vorið 2020. Hún starfar sem nuddari og er með aðstöðu í Yogashala í Skeifunni 7 í Reykjavík. Hún fer líka í fyrirtæki og nuddar starfsfólk þar. Nuddið hennar er aðallega heildrænt en hún býður upp á margar týpur af nuddi svo sem svæðameðferð (reflexology), klassískt-, íþrótta-, sogæða- og meðgöngunudd.
Tímapantanir eru í gegnum facebook síðuna Nudd hjá Svövu eða Instagram reikning með sama nafni.
https://www.facebook.com/nemanuddsvovu.is
https://www.instagram.com/nuddhjasvovu/