Sýnum ábyrgð – bæði í vinnunni og heima!

Mörgum finnst sjálfsagt mál að vanda allt sem gert er í vinnunni en þegar heim er komið er slakað á gæðaeftirlitinu. Hvers vegna er þetta svona? Jú, vinnan er vinna – heima á að vera hægt að hafa hlutina afslappaða. Ef þú stendur þig ekki vel í vinnunni áttu á hættu að þér verðið sagt upp. Hugsanlega fengir þú einhverja viðvörun þannig að það þýðir ekki að slá slöku við til lengdar. Heima er allt í lagi að taka lífinu aðeins með ró, gera það sem maður allra helst vill og slappa af eftir því sem hægt er til að „hvíla lúin bein“ í víðum skilningi. Hver segir þér upp heima?

Er þetta í lagi? Finnst þér í góðu lagi að draga úr gæðakröfunum þegar heim er komið? Hvað táknar það og hvað getur það haft í för með sér til lengri tíma litið?

Sem dæmi má taka konu sem gegnir ábyrgðarstöðu í fyrirtæki. Hún leggur sig fram við að mæta vel klædd, vel snyrt og í alla staði vel til höfð. Í vinnunni leggur hún kapp á að þjónusta viðskiptavini sína af áhuga, heilum hug, kurteisi og vinsemd. Hún leyfir sér aldrei að æsa sig í vinnunni. Hún hvorki hækkar röddina verulega né skammast þó eitthvað gangi erfiðlega. Stundum kemur það fyrir að fólkið sem vinnur undir hennar stjórn er alls ekki að standa sig sem skyldi. Í slíkum tilvikum leggur hún áherslu á að tala við starfsfólkið af nærgætni og notar jákvæða gagnrýni.

Í jákvæðri gagnrýni felst að leggja megináherslu á það sem vel hefur gengið og ræða síðan á varfærnislegan hátt það sem hefur farið úrskeiðis og hvernig það hefði mátt fara betur. Oft er síðan leitað að æskilegri lausn og hvernig megi gera hana að veruleika.

Nú er vinnudeginum í fyrirtækinu lokið. Þegar heim er komið er sem konan breytist, líkt því að hún skipti hreinlega um ham. Kurteisa, athafnakonan sem hefur góða yfirsýn yfir öll helstu verkefnin í vinnunni sýnir nú á sér allt aðra mynd.

Það er engu líkara en að þetta breytist við það að hún fer úr vinnudressinu og skellir sér í heimafötin. Nú þarf að ná að sinna heimilinu, sinna börnunum sem hún sótti í leikskólann á leiðinni heim úr vinnunni. Það þarf að þvo þvott, fylgjast með heimanámi elsta barnsins, búa til matinn, baða litlu börnin og koma þeim í háttinn. Nú þarf lítið til að allt sjóði upp úr, hún finnur að innra með sér er sem hún sé við það að springa. Einu barninu verður eitthvað á og um leið byrjar hún að skamma barnið og koma með neikvæðar athugasemdir. Eitt rekur annað og að lokum er hún bæði örmagna af þreytu og döpur yfir því hvernig hún kom fram við saklaus börnin.

Þetta er lýsandi dæmi um streituna í þjóðfélaginu í dag. Margir eiga hreinlega afar lítið eftir af orku og krafti þegar þeir koma heim eftir langan vinnudag. Skuldirnar hafa hlaðist upp og því þarf að vinna meira, vinnudagarnir lengjast og hvíldartíminn minnkar. Þreytan eykst. Andlegri líðan hrakar.

Einbeittu þér að morgni, finndu þinn innri kraft og að láttu hugann reika yfir næstu verkefni – sjáðu fyrir sér málin þróast á besta veg.

– Að staldra við í morgunsárið til að leiða hugann á slóðir dagsins getur reynst fólki vel til að fá yfirsýn yfir verkefni dagsins, ekki bara í vinnun ni heldur líka heima.
– Þá er ágætt að hafa hjá sér blað og blýant og skrifa niður það helsta sem liggur fyrir.
– Skrifaðu lóðrétt niður blaðið, eitt atriði í hverja línu.
– Síðan skaltu forgangsraða.

Næsta skref væri síðan að skrifa niður raunhæf en um leið ögrandi markmið á helstu 4 sviðunum; fjármálum, heilsu, persónulegum samskiptum og visku. Veldu þér svo eitthvað eitt sem þér finnst þú þurfa að bæta þig verulega í, eitt fyrir vinnuna og annað fyrir heimilið. Gerðu svo eitthvað á hverjum degi í 30 daga til að komast nær því markmiði. Byrjaðu á þessu strax í dag!

Gangi þér vel,
Njóttu þess að blómstra bæði í einkalífi og starfi!

Jóna Björg Sætran, menntunarfræðingur

Mynd: Toa Heftiba hjá Unsplash

Um höfund

Jóna Björg Sætran
Jóna Björg SætranM.Ed., kennari, ICF markþjálfi, HAM
- starfar við markþjálfun, hugræna atferlismeðferð, námstækni, samtalsmeðferðir, fyrirlestra, kennslu og námskeiðahald.

Starfssvið Jónu Bjargar Sætran einkennist af því að samnýta þekkingu sína og reynslu af menntunarfræðum, áratuga reynslu af kennslu í grunn- og framhaldsskólum, markþjálfun, hugrænni atferlismeðferð, námskeiðahaldi, fyrirlestrum, kennslufræði, fyrirtækjarekstri og árangursfræðum í víðum skilningi til að opna fólki sýn á mátt einstaklingsins til að hafa áhrif á eigin velferð, vellíðan og lífshamingju.

Namstaekni.is
FengShui.is